25.06.2021
Í gær héldu leikskólabörnin okkar í Stapaskóla upp á sumarhátíðina sína.
Krakkarnir buðu aðstandendum í heimsókn á útisvæði þar sem þau sungu nokkur lög, buðu upp á skúffuköku og léku sér á frábæra útisvæði okkar.
Dagurinn var einstaklega vel heppnaður og þökkum við starfsfólk þeim sem mættu innilega fyrir komuna og óskum nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum Stapaskóla gleðilegs sumars.
Lesa meira
22.06.2021
Sumarhátíð leikskólastigs Stapaskóla verður haldin fimmtuaginn 24. júní frá 14.00 - 16.00 á útisvæði leikskólans.
Foreldrar eru velkomnir !
Dagskrá:
Atriði frá deildum
Andlitsmálning
Krítar
Pokahlaup
Fallhlíf
Sandpokakast
Kveðja
Starfsfólk Stapaskóla
Lesa meira
21.06.2021
20.júní er alþjóðlegur dagur flóttafólks. Að því tilefni barst elstu börnunum okkar á leikskólastigi og skólanum sjálfum bókagjöf.
Bókin heitir Ofurhetjur í einn dag og er eftir Önnu Guðrúnu Steinsen tómstunda- og félagsmálafræðing. Viðfangsefni bókarinnar er vinátta, samkennd og gleði og fjallar um mikilvægi þess að standa með sjálfum sér og öðrum.
Við þökkum kærlega fyrir bókagjöfina
Lesa meira
16.06.2021
Elstu börnin í leikskólanum fóru í útskriftarferð mánudaginn 14.júní. Farið var með strætó í Njarðvíkurskóga þar sem börnin léku sér í þrautabrautinni og grillaðar voru pylsur. Þrátt fyrir kalt veður var þetta frábær dagur og allir sáttir með ferðina
Lesa meira
15.06.2021
Þriðjudaginn 8. júní voru haldin skólaslit í fyrsta sinn í nýju húsi Stapaskóla. Nemendur mættu prúðbúnir í tvenndirnar sínar þar sem þeir hlustuðu á ávarp skólastjóra ásamt því að kennarar lásu upp hrósskjöl fyrir hvern og einn nemanda. Að lokum fengu nemendur uppskeru skólaársins í formi vitnisburðar.
Hér má lesa ávarp skólastjóra.
Ágætu nemendur og starfsfólk Stapaskóla
Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á skólaslit Stapaskóla.
En í dag er komið að því að kveðja skólaárið 2020 - 2021 og um leið að líta á lærdómsrík augnablik.
Það má með sanni segja að skólaárið sem er fyrsta af mörgum í nýrri skólabyggingu hafi verið fjölbreytt, krefjandi og skrítið að mörgu leyti. Hér hófu um 65 starfsmenn störf og um 270 nemendur á grunnskólastigi og 69 á leikskólastigi. Allir tilbúnir og spenntir fyrir nýjum skóla og nýju skólaári.
Ýmsar aðstæður gerðu það að verkum að við þurftum að byrja á þremur stöðum með nemendur okkar, þar sem 1. - 4. bekkur og leikskólastigið var hér í nýju byggingunni, 5. og 6. bekkur var í Stapahöll og 7. - 9. bekkur fékk aðsetur hjá Keili á Ásbrú.
Í öllum aðstæðum höfum við val, val um það hvernig við tökumst á við þau verkefni sem verða á vegi okkar. Í haust höfðum við val um að fallast hendur eða þá að halda ótröð áfram og gera það sem þurfti til að gera nemendum okkar kleift að mæta í skólann á tilsettum tíma. Þetta gátum við því hér erum við með framúrskarandi starfsfólk sem vildi gera allt sem í sínu valdi stóð til að láta hlutina ganga upp.
Þið kæru nemendur hafið staðið ykkur með eindæmum vel í þessum aðstæðum. Mörg ykkar hafið flutt ykkur til og frá í húsnæðinu þegar nýjar takmarkanir voru settar vegna Covid - 19, aftur og aftur. En alltaf mættuð þið með bros á vör og tilbúin að takast á við ný verkefni. Það er ekki sjálfgefið að vera með slíka nemendur og eigið þið öll stórt hrós skilið fyrir það. Ég vil líka hrósa öllu starfsfólki skólans sem hefur einnig lagt mikið á sig við að gera og græja það sem þurfti með það að leiðarljósi að ykkur líði vel og þið gætuð haldið áfram að auka við þekkingu ykkar. Ég vil að við gefum þeim og ykkur gott klapp!
Að skapa skóla er stórt verkefni sem við sem skólasamfélag erum öll þátttakendur í. Þátttakendur sem eiga að hafa rödd, að fá tækifæri á að segja sitt og eiga samtal um þá fjölmörgu þætti sem eru hluti af skólastarfinu. Saman höfum við skapað okkur gildi sem eru Gleði – Vinátta – Samvinna – Virðing. Þessi einkunnarorð unnum við öll saman og í gegnum skólastarfið viljum við sjá og heyra brosin ykkar, hlátrasköllin og vináttu byggjast upp á milli fjölbreyttra einstaklinga með virðingu að leiðarljósi. Við viljum að hér sé gaman og að þið fáið að njóta alls hins besta sem skóli á og getur boðið uppá.
Þegar ég lít yfir og horfi á ykkur öll sem starfið hér í skólanum þá sé ég umburðarlyndi, gleði, jákvæðni og hjálpsemi. Allt þættir sem gera það að verkum að hér líður okkur vel og hér viljum við vera.
Í vetur hafið þið krakkar tekist á við ótal verkefni sem sum voru létt og önnur erfið. Verkefni sem hafa krafist þess að fara út fyrir kassann og prófa nýja hluti. Hér eruð þið með starfsfólk sem hefur lagt sig fram við að skapa skemmtilegt og skapandi skólastarf, með samþættingu námsgreina og heildstæðum verkefnum. Allt til þess að gera ykkur enn betri í dag en í gær. Mörg ykkar hafið unnið sigra og einhverjir tapað líka en þá er mikilvægast af öllu að halda áfram að læra nýja hluti, að leggja sig fram og aldrei að hætta. Þið sýnið seiglu og þrautseigju með að reyna aftur og aftur þar til einn daginn - þið kunnið og getið!
Á vorin eru oft starfsmannabreytingar og að þessu sinni eru eftirfarandi aðilar að fara í ný verkefni og á vit nýrra ævintrýra.
Það eru Garðar Ingi Leifsson, Guðný Pála Rögnvaldsdóttir, Hildur Ósk Indriðadóttir, Ólöf Ösp Halldórsdóttir, Sara Björk Bess og Sigríður Sigurðardóttir. Við þökkum þeim fyrir vel unnin störf og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Ég hvet ykkur til að halda alltaf áfram að prófa nýja hluti, að halda áfram að kynnast nýjum vinum, verið góð við hvort annað og sýnið öllum sem þið umgangist virðingu. Nú gangið þið út í sumarblíðuna með bros á vör og í umslagi uppskeru vetrarins. Munið að njóta augnabliksins, finnið lyktina af grasinu, horfið á skýin og ekki gleyma því að vera krakkar.
Með gleði í hjarta og þakklæti í huga kveð ég þetta skólaár og hlakka til að sjá ykkur öll í haust, brún og sælleg.
Ég segi skólaárinu slitið og takk enn og aftur fyrir samveruna.
Lesa meira
11.06.2021
Töluvert magn af óskilamunum liggur nú frammi í aðal anddyri skólans. Um er að ræða fatnað, skóbúnað, yfirhafnir, skólatöskur, íþróttatöskur, brúsa og sitthvað fleira. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að koma við og fara í gegnum óskilamunina og athuga hvort að þarna sé leynist eitthvað sem tilheyrir ykkar barni.
Föstudaginn 18. júní verður farið með ósótta muni í fatasöfnun Rauða krossins.
Lesa meira
08.06.2021
Skrifstofa skólans er opinn til og með mánudagsins 5. júlí en þá ætlum við að fara í sumarfrí.
Starfsmenn Stapaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars. Hlökkum til að sjá alla í haust.
Lesa meira
08.06.2021
Þemadagar Stapaskóla stóðu yfir dagana 1-4. júní. Þema dagana voru hetjur og var nemendum skipt upp í hópa þvert á skólann. Það er í hverjum hóp voru nemendur frá 5 ára til 15. ára sem unnu saman í ýmiskonar smiðjum þar sem reynt var á íþróttir og listir. Í smiðjunum gerðu nemendur stuttmynd, bjuggu til teiknimyndasögu, útfærðu þemalög, útbjuggu búninga og fána og æfðu sig fyrir hetjuleikana sem haldnir voru á fimmtudeginum 3. júní. Á hetjuleikunum kepptu liðin svo í fjölbreyttum áskorunum og þrautum og hvöttu hvort annað áfram. Sama dag fengu nemendur svo tækifæri til þess að horfa á upptökur af sýningunni Alli og lampinn sem leikfélag skólans hefur verið að vinna að í vetur.
Föstudaginn 4. júní var svo skertur skóladagur nemendur gengu um skólann og skoðuðu þemadaga verk hvors annars. Þá voru úrslit hetjuleikana tilkynnt ásamt því að viðurkenningar voru veittar frá öllum smiðjum.
Lesa meira
08.06.2021
Mánudaginn 7. júní héldu nemendur á elstu deild leikskólastigs og á grunnskólastigi Stapaskóla upp á vorhátíð. Á vorhátíðinni var árgangakeppni þar sem keppt var í mismunandi þrautum og hafði hver árgangur valið sér sinn lit til þess að einkenna sig á hátíðinni. Nemendur í 3. bekk, 6. bekk og 8. bekk báru sigur úr býtum hver í sínum flokki í þessari skemmtilegu þrautakeppni.
Eftir þrautakeppnina mætti dansari frá Dans Afríka Iceland og kenndi nemendum og starfsfólki afró dansa á skólalóðinni. Þegar því var lokið mætti Friðrik Dór á svið og söng og skemmti krökkunum. Að lokinni dagskrá fengu allir krakkar pylsur og svala áður en þau fóru heim.
Lesa meira
04.06.2021
Mánudaginn 14. júní verður kynningarfundur fyrir foreldra barna sem eru að hefja leikskólagöngu sína og þeirra sem eru að byrja í 1.bekk.
Fundurinn hefst kl 15.00 og er í fjölnotasal Stapaskóla.
Hlökkum til að sjá ykkur
Lesa meira