Atlæti

Atlæti er mjög tengt Uppeldi til ábyrgðar. Atlæti í skólastarfi snýst um að allir finni til öryggis og vellíðan í skólanum, bæði nemendur og starfsfólk. Lögð er áhersla á líðan, þroska og vöxt hvers og eins auk þess sem nálgunin er áfallameðvituð. Markmiðið er að börn, ungmenni og fullorðnir nýti styrkleika sína og hæfileika til fulls. Atlæti er unnið í samstarfi við miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.

Á stórum vinnustað eins og Stapaskóla koma daglega upp allskonar samskiptavandamál sem þarf að vinna og leysa úr. Þegar eitthvað bregður út af á starfsmaður eða kennari að ræða við nemandann eða nemendur sem um ræðir. Horft er til þeirra gilda sem skólinn fylgir hefur samþykkt frekar en að horfa til reglna þar sem boð og bönn eru skilgreind. Skammir hafa oft þveröfug áhrif og frekar eru málin rædd með þeim einstaklingum sem eiga hlut í máli. Í þeim samræðum er tilgangurinn að sættast og leggja drög af samskiptum í framhaldinu. Áhersla er á að byggja nemendur upp í stað þess að brjóta niður. Gildi okkar eru notuð sem grunnur að lausn mála fremur en reglur og viðurlög. Við leggjum áherslu á að byggja upp!

Unnið er eftir sex lykilþáttum vellíðunar í námi þegar unnið er eftir aðferðum Atlætis. Allir þættirnir sex fléttast saman með einum eða öðrum hætti. 

Lykilþættirnir sex eru:

  • Íhuga hvernig við eigum samskipti en Atlæti leggur ríka áherslu á hlýju og væntumþykju í samskiptum. Notkun inniraddar er höfð í fyrirrúmi og reynt að hafa samskipti á rólegu nótunum. 
  • Ígrunda hegðun og þroskastig barna og spegla okkar eigin starfsaðferðir. Við þurfum öll að ígrunda okkar eigin starfshætti reglulega og markvisst. Við þurfum að meta hvernig við högum okkur, viðhorf okkar, venjur og þarfir. Auk þess sem við þurfum að vera meðvituð um dagsformið og taka tillit til þess og nýta okkur teymissamstarfið þegar við eigm ekki góðan dag.
  • Byggja upp jákvæða sjálfsmynd og sjálfstraust. Jákvæð sjálfsmynd er mikilvæg fyrir alla, unga sem aldna. Hvað getum við gert í skólastarfinu sem styður við jákvæða sjálfsmynd nemenda okkar?
  • Finna fyrir tilfinningalegu öryggi. Að finna fyrir tilfinningalegu öruggi er nauðsynlegt fyrir andlega heilsu, nám og árangur, það er grunnurinn að vellíðan.Þarna eru tengsl það allra mikilvægasta. Við sem starfsfólk skólans þurfum að passa upp á að eiga jákvæð tengs við nemendur. Þegar nýta þarf inngrip við nemendur þá er rólegt starfsfólk sem notar inniröddina og hugar að líkamstjáningu mun líklegra til að ná árangri í samskiptum heldur en æstur og reiður einstaklingur sem hækkar róminn um of. 
  • Fagna fölbreytileika og inngildingu. Við þurfum að styðja við okkar skólamenningu þannig að það sé áhersla á að skapa jöfn tækifæri fyrir alla, að menningu allra sé gert hátt undir höfði. Það þurfa allir að tilheyra óháð hver og hvernig maður er. Allir eiga rétt á því að þörfum þeirra sé mætt. 
  • Mæta félagslegum, tilfinningalegum og hugrænum þörfum. Öll börn eru mismunandi og læra á mismunandi hátt. Allir nemendur okkar ættu að hafa áskoranir sem og að finna fyrir stuðningi í námi sínu. Stundum þurfa  börn að horfast í augu við hindranir í leik og starfi og þá er mikilvægt að við séum að tækla það með þeim. Veitum börnunum stuðning og leiðsögn en gætum þess einnig að við séum fyrirmyndir þegar að samskiptum kemur. 

Við horfum fram á við og einbeitum okkur að lausninni en ekki að vandamálinu. Í lausninni er lærdómurinn!