Fréttir

Lúlli löggubangsi í heimsókn

Í heilsu- og forvarnarviku kom Krissi lögga með Lúlla löggubangsa í heimsókn á leikskólastig Stapaskóla. Krissi sagði nemendum söguna um hann Lúlla og hvernig hann lærði að passa sig í umferðinni. Einnig var farið yfir mikilvægi þess að vera alltaf rétt spenntur í bílstólnum og að nota endurskinsmerki. Að endingu tók Krissi upp gítarinn og sungum við saman nokkur lög. Síðan fengu allir límmiða með kveðju frá Lúlla. Við þökkum Krissa og Lúlla kærlega fyrir komuna.
Lesa meira

Krissi lögga kom með Blæ

Í morgun fengum við Krissa löggu og Lúlla löggubangsa í heimsókn í tilefni af heilsu- og forvarnarviku. Ekki nóg með það heldur kom Krissi með Blæ handa yngstu nemendunum okkar á Völusteini. Blær er lítill bangsi sem þau munu eiga í leikskólanum alla sína leikskólagöngu. Leikskólinn okkar er Vináttuskóli en Vinátta er forvarnarverkefni sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að og gefa út í samstarfi við Red Barnet – Save the Children í Danmörku og Mary Fonden samtökin. Markmið Vináttu er að: efla félagsfærni, styrkja sjálfsmynd, stuðla að jákvæðum samskiptum, efla samstöðu og að koma í veg fyrir einelti innan barnahópsins. Jafnframt byggir verkefnið á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem eru í samræmi við Barnasáttmálann, heimsmarkmiðin og aðalnámskrá. Til að ná sem mestum árangri er mikilvægt að allir sem koma að börnunum séu samstíga, þekki Vináttu og tileinki sér gildin sem hugmyndafræðin byggir á en þau eru: virðing, hugrekki, umburðarlyndi og umhyggja. Þar skipta foreldrar einna mestu máli enda eru þeir fyrirmyndir barna sinna og spegla þeirra viðhorf, framkomu og samskipti. Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu, honum fylgja litlir hjálparbangsar sem ætlaðir eru hverju barni sem tekur þátt í Vináttu. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og að vera góður félagi allra. Litli Blær á heima í skólanum en börnin fá hann með sér heim að lokinni leikskólagöngu.
Lesa meira

Köngulær í 3 bekk

Undanfarnar vikur hefur 3. bekkur í Stapaskóla verið að vinna með köngulær í samþættingu námsgreina. Þar erum við búin að vera að skoða lífhætti og einkenni þeirra. Sem hluti af þemaverkefni höfum við verið að veiða þær og skoða þeirra ólíku einkenni ásamt því hvað þau þurfa til þess að lifa af. Köngulær eru nefninlega svo magnaðar og mjög mikilvægur hluti af vistkerfum jarðarinnar.
Lesa meira

Samtalsdagur á grunnskólastigi

Á morgun fimmtudag 3. október verður samtalsdagur í Stapaskóla. Þá mæta nemendur með foreldrum sínum í viðtal hjá umsjónarkennurum. Þennan dag er því ekki hefðbundin skóli en frístundaheimillið Stapaskjól er þó opið á milli kl. 8:00 og 16:15 (fyrir þá sem eru skráðir).
Lesa meira

Kökukeppni í heimilisfræði í 5. bekk

Kökukeppni í heimilisfræði í 5. bekk. Í heimilisfræði í 5. bekk hefur Hrönn heimilisfræðikennari það til siðs að ljúka smiðjunni með kökugerðarkeppni. Fyrstu tveir hópur ársins eru búnir að taka þátt í kökukeppninni. Þá skiptu þau sér í fjóra hópa í hvorri smiðjunni og hver hópur fyrir sig ákvað hvað skyldi baka. Í fyrri smiðjunni bökuðu hóparnir fjórir marengstertu, súkkulaðiköku, eplaköku og bananatertu. Seinni hópurinn bakaði hinsvegar tvær súkkulaðikökur, marengstertu og hnallþóru með tvennskonar botnum, bæði súkkulaðibotni og hefðbundnum svampbotni. Allt saman afar bragðgóðar og flottar kökur. Hrönn fékk fjórar starfsmenn við skólann til þess að dæma í keppninni en dæmt var eftir útliti og bragði. Hjá fyrri hópnum var það var gamla góða eplakakan sem bar sigur úr býtum hjá fyrri hópnum. Bakararnir voru þær Birta og Alexandra Ólöf. Í seinni hópnum var það marengstertan sem hafði vinninginn en hana bökuðu Emelía Rós og Elana. Dómararnir höfðu þó að orði að allar kökurnar hefðu bragðast afar vel og að valið hefði verið erfitt. Það voru því kátir og hressir krakkar sem luku við heimilisfræðismiðju eftir fyrstu lotu með fulla bumbu af köku!
Lesa meira

Sameiginleg söngstund á útisvæði

Á mildum og góðum dögum getur verið gaman að brjóta upp hið hefðbundna starf í leikskólanum. Það höfum við gert undanfarið og verið með sameiginlega söngstund á útisvæði. Það er fátt betra en að syngja hástöfum úti undir beru loft, þenja lungun vel og fá frískt loft í leiðinni. Ferskt loft er gott fyrir lungun og kemur blóðinu á hreyfingu. Svo léttir söngur lundina.
Lesa meira

Starfsdagur á leikskólastigi

Á miðvikudaginn 25. september er starfsdagur á leikskólastigi. Þá eru kennarar og starfsfólk að efla sig í starfi með fræðslu og samvinnu. Leikskólastigið er því lokað þennan dag.
Lesa meira

Ólympíuhlaup ÍSÍ og Stapaskóla

Föstudaginn 6.september 2024 fór fram Ólympíuhlaupið hjá okkur í Stapaskóla. Í Ólympíuhlaupinu hlaupa og/eða ganga nemendur 1,8 km hring í hverfinu okkar og reyna að ná eins mörgum hringjum að þau geta á einni klukkustund. Markmið með Ólympíuhlaupinu er að hvetja nemendur að stunda holla hreyfingu og að allir taki þátt. Hlaupið fór fram í góðu veðri og var mikil gleði og ánægja meðal nemenda í hlaupinu. Árangur skólans var frábær og hljóp skólinn samtals 949 hringi eða 1708 km. Veitt voru sérstök viðurkenningarskjöl í eftirfarandi flokkum 1.-4.bekkur 3 hringi (5km) eða meira. 5.-10.bekkur 5 hringir (9km) eða meira. Sérstök verðlaun voru veitt fyrir þann árgang sem fór að meðaltali flesta kílómetra. Í ár var það níundi bekkur sem unnu þessi verðlaun. Frábært og vel heppnað Ólympíuhlaup hjá okkur í Stapaskóla.
Lesa meira

Starfsdagur á grunnskólastigi

Föstudaginn 13. september er starfsdagur á grunnskólastigi Stapaskóla, frístundaheimilið Stapaskjól er einnig lokað þann dag vegna starfsdags. Kennarar og starfsfólk skóla nýtir daginn í fræðslu, skipulag og undirbúning.
Lesa meira