- Skólinn
- Nám & kennsla
- Stoðþjónusta
- Frístundaheimilið
- Leikskólastig
- Foreldrar
- Hagnýtt
- Farsæld barna
Á hverju ári stokkast upp unglingastig Stapaskóla í nokkra daga og nemendur hefjast handa við að hanna, skipuleggja, setja upp og framkvæma tilraunir innan fyrir fram ákveðins þema. Nemendur setja upp skýrslu í formi plakats og taka upp kynningu sem fer svo til dómnefndar. Þetta ferli tekur nokkra daga og er yfirskriftin náttúrugreinar sem þó taka inn upplýsingatækni, íslensku, erlend tungumál, stærðfræði og samfélagsfræði. Verkefnin eru stór og krefjast þess að nemendur kafi á dýptina við að leita svara við rannsóknarspurningum sínum. Á sama tíma er þjálfun tengd gagnvirkum lestri. Öll æfingaverkefni sem þau fá fyrir þetta stóra þema eru sett upp þannig að tenging er á milli vísindalegra vinnubragða og gagnvirks lesturs. En að læra að kafa, kanna, kryfja, spyrja spurningu og miðla er bein tenging þar á milli.
Á þessum tíma er nóg um að vera og skipulag því eitthvað sem skiptir miklu máli. Verkefnið sem slíkt er mikilvægt en þó sér í lagi þar sem nemendur koma að því með ólíkum hætti. Í skólastarfi án aðgreiningar skiptir máli að verkefni séu við hæfi allra. Því fá nemendur tækifæri til að sækja um í tækniteymi sem heldur utan um upptökur, skrásetningu og skipulag. Án þessara nemenda væri verkefnið ekki mögulegt. Að sama skapi fengum við heimsóknir frá vísindamönnum sem gáfu innsýn í þeirra vinnu og hvernig vísindin tengjast samfélaginu. Þau Jan frá Algalíf og Sigrún frá BIOeffect voru með frábærar kynningar sem kveiktu í nemendum og opnaði augu þeirra til allra möguleikanna sem framtíð þeirra getur gefið.
Því hefur hópur nemenda og kennara unnið saman að því að setja upp og skipuleggja tökusvæði sem nemendur nýttu við sitt myndband. Þetta teymi skiptir miklu máli og þökkum við þeim fyrir sitt mikilvæga framlag. Þau halda utan um skráningar allra hópa í upptökur, hvetja aðra áfram og eru jákvæðar fyrirmyndir inn í þetta verkefni.
Við lok þessa verkefnis er haldin uppskeruhátíð þar sem dómarar mæta í hús. Áður en dómararnir mæta hafa þeir farið yfir myndbönd allra. Þeir hitta svo ungu vísindamennina í eigin persónu sem kynna sitt verkefni. Að lokum tilkynna þeir um sigurvegara en veitt eru verðlaun fyrir 1.-3. sæti ásamt því að dómarar velja hópa sem hljóta hvatningaverðlaun. Dómarar okkar í ár voru þau Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, Valdís Guðmundsdóttir, verkefnastjóri í auðlindastýringu HS Orku og Heiðar Darri Hauksson, fyrrum nemandi Stapaskóla. Við gætum ekki haldið slíka uppskeruhátíð ef það væri ekki fyrir fólk sem vill gefa af tíma sínum og sinna dómgæslu ásamt þeim fyrirtækjum sem lögðu okkur lið og styrktu okkur um verðlaun. Ber að þakka þeim hér með en þau fyrirtæki sem lögðu verkefninu lið í ár eru: MMS, Landsbankinn, KFC, Ísbúðin Huppa, Stapaprent, Penninn Eymundsson, Reykjanesapótek, Skjöldur ráðgjöf, Don Donuts, Sambíóin, Keiluhöllin, Prodomo og SA design. Með þeirra aðstoð var hægt að gera vel við nemendur sem lögðu sig alla fram við að vinna í sínum verkefnum og kafa djúpt í þá þekkingu sem skipti máli í þeirra þekkingasköpun.
Hægt er að skoða fleiri myndir hér.