Stapaskóli hlýtur viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni mánaðarins

Í mars 2025 hlaut verkefnið okkar „Ink of Unity – Celebrating our true colors" nafnbótina eTwinning verkefni mánaðarins. Verkefnið var áhrifaríkt samstarf fjögurra skóla frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Verkefnið spratt upp úr heimsókn kennara okkar, Hólmfríðar Rúnar Guðmundsdóttur og Selmu Ruth Iqbal, á eTwinning ráðstefnu í Finnlandi um and-rasisma vorið 2024, en þær leyddu verkefnið hér innanhús. Á ráðstefnunni kviknaði hugmyndin að verkefni sem miðaði að því að efla sjálfsþekkingu, virðingu og skilning á fjölbreytileika meðal nemenda á aldrinum 10-16 ára.

Verkefnið byggðist á þremur meginmarkmiðum:

  1. Að skoða og vinna með raunverulega húðliti fólks sem hluta af litrófi mannkynsins
  2. Að brjóta niður staðalmyndir um tengsl þjóðernis og húðlitar
  3. Að styrkja sjálfsmynd nemenda og draga fram það sem þau eiga sameiginlegt

Nemendur tóku virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum. Þeir kynntu skólana sína með myndböndum, unnu að sjálfsmyndarverkefnum, blönduðu vatnsliti til að ná nákvæmum húðlit sínum og sköpuðu listaverk og bókaljóð sem endurspegluðu sjálfsmynd þeirra. Afraksturinn var deilt á sameiginlegum Padlet-vegg þar sem nemendur gáfu hvert öðru uppbyggilega endurgjöf.

Verkefnið skapaði dýrmæt samtöl um fjölbreytileika og sjálfsmynd, bæði meðal nemenda og kennara. Nemendur sýndu mikla einbeitingu og fengu aukinn skilning á því að við erum öll ólík en eigum margt sameiginlegt.

Þó að sameiginleg skipulagning milli landa hafi verið krefjandi og tveir skólar hafi dregið sig út úr verkefninu, héldu fjórir skólar áfram með góðum árangri. Lokaniðurstaðan verður rafbók með öllum listaverkum og ljóðum nemenda sem verður birt opinberlega.

Afrakstur verkefnisins má nú sjá á sýningu í Stapasafni. Verkefnið hefur haft jákvæð áhrif á nám, skólabrag og alþjóðlegt tengslanet Stapaskóla.