Skólaþing

Í gær tókum við á móti góðum hópi af foreldrum og nemendum úr 7. - 10. bekk til að ræða saman um símtækjanotkun og gæði kennslu. Í upphafi fór skólastjóri yfir hvers vegna skólinn væri að eiga þetta samtal og hvernig fyrirkomulag kvöldsins yrði háttar. Það voru svo þær Inga Svava og Katrín Alda nemendur úr 10. bekk sem voru með kveikju áður en haldið var af stað í hópavinnu. Þær komu með góðar hugmyndir og bentu jafnframt á mikilvægi þess að foreldrar hætti að trufla nemendur á skólatíma sem er þeirra vinnutími. 

Þær spurningar sem lagt var upp með voru eftirfarandi:

  • Hvernig hefur símanotkun áhrif á gæði kennslu?
  • Hvernig hefur símanotkun áhrif á félagsfærni og samskipti?
  • Hvernig lágmörkum við notkun símtækja á skólatíma?
  • Hvernig högum við samskiptum við börnin okkar á skólatíma?
  • Hvernig hefur símanotkun áhrif á gæði samverustunda heima?
  • Eru reglur eða hömlur á símanotkun heima?

Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að eiga samtal um hvaða hugmyndir bæði foreldrar og nemendur sjá til að auka vellíðan nemenda og gæði kennslu. Í framhaldi mun starfsfólk skólans svara hluta af spurningum á starfsmannafundi. Allar niðurstöður verða svo dregnar saman og sett fram til nemenda. Við teljum að með því að taka ákvörðun saman, með því að gefa öllum tækifæri á að koma með sínar hugmyndir og skoðanir þá náum við árangri. 

 Hér má sjá kveikjur Ingu Svövu og Katrínar Öldu.

Gott kvöld kæru samnemendur og foreldrar við heitum Katrín Alda og Ingibjörg Svava. Í kvöld ætlum við að ræða um vinnubrögð Stapaskóla og  símanotkun í skólum. Eins og flestir vita þá er unnið með mikla tækni í Stapaskóla og nemendur hafa marga valkosti um hvernig þeir sinna náminu sínu. Þetta skipulag hefur verið mjög þægilegt og hjálpað mörgum að skipuleggja sig í námi, Það kennir nemendum sjálfstæð vinnubrögð og skipulag. Nemendur þurfa mismunandi tæki og tól fyrir námið eftir því hvað hentar þeim best, Stapaskóli hefur þróast með samfélaginu og er því ekki eins og flestir skólar. Við erum svo heppin að við fáum að taka þátt í að móta skólastarfið með stjórnendum og starfsfólki skólans.  

Í Stapaskóla upplifum við að á okkur sé hlustað og við fáum að koma okkar hugmyndum á framfæri. Það undirbýr okkur vel fyrir framtíðina og þau verkefni sem við munum takast á við.  

En að öðru þá ætlum við að tala um símanotkun í skólum. Það er okkar skoðun að símabann sé ekki lausn á neinu vandamáli heldur mun vandamálið verða stærra því öll orka og tími kennara og starfsfólks mun fara í það að fylgja þessari reglu. 

Það er mun vænlegra til árangurs að við lærum hvenær má hafa símann og hvenær ekki, sem dæmi að við séum ekki með símann uppi í kennslustundum en megum hafa þá í frítímum. Fyrir suma þá er síminn þeirra besti vinur. Að sjálfsögðu er það ekki sú staða sem við viljum að neinn sé í, en raunveruleikin er samt þessi. Flestir nemendur segja þegar rætt er um síma, hvað ef eitthvað kemur uppá, eða mamma þarf að tala við mig? Það er alltaf hægt að hringja í Önnu ritara ef það þarf að koma skilaboðum til okkar. Foreldrar hættið að hringja í okkur á okkar vinnutíma.