- Skólinn
- Nám & kennsla
- Stoðþjónusta
- Frístundaheimilið
- Leikskólastig
- Foreldrar
- Hagnýtt
- Farsæld barna
Skólaslit Stapaskóla fóru fram föstudaginn 5. júní. Í ljósi aðstæðna komu nemendur án foreldra til skólaslita. Nemendur hlustuðu á nokkur orð frá skólastjóra á sal skólans. Að lokum fóru þeir inn í rými sín þar sem kennarar lásu hrósskjöl nemenda og vitnisburður var afhentur.
Gróa skólastjóri fór yfir mikilvægi þess að við höfum alltaf val, val um það hvernig við tökumst á við verkefni sem verða á vegi okkar. Við höfum val um að setja á okkur þau gleraugu sem við kjósum og sem munu nýtast okkur á góðan og jákvæðan hátt. Framan af gekk skólaárið sinn vanagang en í lok febrúar tóku við fordæmalausir tímar þar sem nemendur og starfsfólk þurfti að aðlagast og takast á við áskoranir sem enginn hefur þurft að takast á við áður. Með samvinnu alls skólasamfélagsins tókst vel til, nemendur mættu annan hvern dag í skólann og hittu ekki vini sína í nokkrar vikur. Gróa þakkaði öllum fyrir samstarfið og vakti máls á að við slíkar aðstæður lærum við nýja hluti, við lærum að vera þakklát og metum lífið meira. Að lokum þakkaði Gróa öllum fyrir frábært skólaár þar sem allir mættu á hverjum degi til að hafa gaman, til að uppgötva nýja hluti og að verða betri í því sem við erum að takast á við.
Í haust munu nemendur og starfsfólk mæta til starfa í nýju skólahúsnæði þar sem 18 mánaða til 14 ára börn mæta til starfa. Mikil tilhlökkun er í samfélaginu fyrir nýju húsnæði sem býður upp á óteljandi tækifæri í fjölbreyttu námsumhverfi.
Megi gleði og gæfa fylgja ykkur í sumar.
Gleðilegt sumar
Gróa skólastjóri