List og lífbreytileiki í 5. og 6. bekk

Í haust bauðst nemendum í 5. og 6. bekk að taka þátt í þróunarverkefni á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Verkefnið ber nafnið List og lífbreytileiki og hlaut það styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands. Umsjónarmenn verkefnisins eru þær Helga og Ragnhildur, safnkennarar Náttúruminjasafns Íslands. Alls eru 8 skólar víðsvegar af landinu sem koma að þessu verkefni og þykir okkur heiður að vera partur af þeim flotta hópi.

Verkefnið  er þverfaglegt og unnið er með breiðum og fjölbreyttum hópi listafólks og BIODICE – samstarfsvettvangur um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi (biodice.is). Markmiðið er að virkja ímyndunaraflið með þverfaglegu samstarfi vísinda og lista og eiga opinskátt samtal við börn og ungmenni um lífbreytileika og mikilvægi hans fyrir komandi kynslóðir.

Á seinustu dögum hafa nemendur fengið kynningu á hugtakinu lífbreytileiki og var áhersla á að fara yfir breytileika hjá tegundum í vistkerfum.

Föstudaginn 25. nóvember kom rithöfundurinn Sverrir Norland í heimsókn en hann er sá listamaður sem við vorum svo heppin að fá í tengslum við verkefnið. Sverrir er rithöfundur, þýðandi, útgefandi og fyrirlesari. Sverrir mætti til nemenda og byrjaði á því að kynna sig og sína sögu. Frásögn hans náði svo til nemenda og hélt hann áhuga þeirra allan tímann. Í lokin tengdi hann frásögn sína við hvernig á að skrifa sögu og fór þannig yfir hvað þarf að hafa í huga í tengslum við skapandi skrif.

Nemendur tóku svo við keflinu og unnu í eigin sögum þar sem dýr voru í aðalhlutverki og var fókusinn á upplifun þeirra. Ótrúlegar sögur litu dagsins ljós og var vinnusemi til fyrirmyndar hjá öllum. Nemendur unnu sögur, myndasögur og teikningar. Áfram verður unnið með viðfangsefnið en lokaafurðir verða sendar í stórt innsetningarverkefni í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins í Perlunni. Stefnt er að því að sýningin hefjist á sama tíma og Barnamenningarhátíð Reykjavíkur (18.-23. apríl 2023) en hún mun standa yfir fram í maí. Áður en afurðir nemenda fara á þessa sýningu er áætlað að bjóða upp á sýningu hér í skólanum fyrir forráðamenn og aðstandendur. Við munum bjóða á hana þegar nær dregur. Meðfylgjandi eru myndir af sögusmiðjunni með Sverrir.

List og lífbreytileiki í 5. og 6. bekk