Heillaspor í Stapaskóla

Í Stapaskóla hefur starfsfólk grunnskólastigs unnið að innleiðingu Heillaspora í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem er heildræn nálgun til að styðja við farsæla þátttöku barna í skóla- og frístundastarfi. Í janúar 2024 hófst ferðlagið í samstarfi við Bergdísi Wilson leiðtoga Heillaspora með námskeiði fyrir allt starfsfólk ásamt aukadegi fyrir innleiðingarteymi skólans. Innleiðingarteymi skólans hefur jafnt og þétt fundað og setið námskeið og fræðslu frá Nurture International í Bretlandi en Heillaspor eru upprunalega þaðan.

Vörður Heillaspora eru sex samtals sem eru samofnar út frá vörðunni um tilfinningalegt öryggi sem er grundvöllur Heillaspora.

En hvað felst í Heillasporum?

  • Heillaspor byggja á kenningum Bowlby’s um tengslafræði og hversu djúpstæð áhrif bernskureynsla getur haft á þroska barna.
  • Heillaspor draga fram mikilvægi jákvæðra tengsla sem undirstöðu árangursríks náms og farsældar út frá hugmyndum Vygotsky.
  • Heillaspor leggja ríka áherslu á vellíðan og tengslamyndun um leið og stutt er markvisst við þroska barna.
  • Heillaspor viðurkenna mikilvægi allra í skólasamfélaginu og hlutverk þeirra í að koma á áreiðanlegum, fyrirsjáanlegum og gefandi tengslum til að styðja við þróun félags- og tilfinningaþroska barna.
  • Heillaspor horfa heildrænt á skólaumhverfið og hlutverk þess í að skapa umvefjandi og kærleiksríkt skólasamfélag sem hefur trú á möguleikum allra til að ná árangri í námi og daglegu lífi.
  • Heillaspor leggja rækt við aðgengilega og inngildandi upplýsingagjöf til að styðja við öryggi barnsins og sjálfbærni í námsumhverfinu.

 Hvað hefur Stapaskóla gert á ferðalaginu?

Allt starfsfólk hefur fengið reglulega fræðslu og tekið þátt í sameiginlegri vinnu við að samhæfa viðmið og viðbrögð við hegðun barna, ásamt því að auka við þekkingu á hvað liggur að baki hegðun. Í hverri tvennd er búið að útbúa svæði/stað fyrir nemendur sem gefur þeim tækifæri á róa sig, jafna sig eftir t.d. eitthvað sem gerðist áður en skóli hófst eða í frímínútum með það að leiðarljósi að þeir upplifi öryggi og ró. Skólinn hefur einnig boðið nemendum uppá ávexti hvenær sem er á skóladeginum. Sumir árgangar eru með söng- og/eða ávaxtastund sem stuðlar að ró í taugakerfi sem gerir þeim kleift að fara af stað í verkefni sín, á meðan aðrir árgangar bjóða uppá ávexti þegar viðkomandi nemandi óskar eftir eða finnur þörfina.

Skólinn hefur sett sér sex væntingar og viðmið sem unnið er eftir viku í senn. Þessi viðmið eru:

  • Í Stapaskóla sýnum við virðingu!
  • Í Stapaskóla gerum við ætíð okkar besta!
  • Í Stapaskóla fylgjum við fyrirmælum um leið og við fáum þau!
  • Í Stapaskóla berum við ábyrgð á okkur sjálfum!
  • Í Stapaskóla sýnum við umburðarlyndi!
  • Í Stapaskóla tileinkum við okkur jákvætt hugarfar!

Í ferðalagi sem þessu er mikilvægt að allt starfsfólk gangi í takt og bregðist við á sama hátt. Með þessari vinnu erum við að efla starfsfólk í því að beita jákvæðri styrkingu og gefa þeim verkfæri til að vinna með óæskilega hegðun.

Við teljum að með Heillasporum munum við geta komið betur til móts við þarfir nemenda, skilið betur hvað fest í tilfinningalegu ójafnvægi og verkfæri til að bregðast við á jákvæðan hátt með vellíðan þeirra að leiðarljósi.