Gefðu 10

Undanfarnar vikur hefur starfsfólk leikskólastigs Stapaskóla lagt áherslu á aðferðina Gefðu 10. Aðferðin er einföld og er ætluð til að auka samræðu og samskipti við fjöltyngd börn sem eru að læra íslensku sem annað mál. Á fjögurra vikna fresti eru börn valin á hverri deild sem starfsfólk á að gefa 10 daglega (10x1 mínútu, 5x2 mínútur eða lengur). Þannig fær barnið 30-50 mínútna jákvæð, málörvandi samskipti í leik til viðbótar við annað málörvunarstarf.

Starfsfólk hefur 10 teygjur á hægri úlnlið og fyrir hverja mínútu sem starfsmaður á í samskiptum við barnið færir hann eina teygju yfir á vinstri úlnlið. Í lok dags eiga því allar teygjurnar að vera á vinstri úlnlið og þá hefur starfsmaðurinn gefið barninu 10 þann dag.

Markmið aðferðarinnar er að örva málþroska, auka samskipti, fjölga námstækifærum barnsins og skapa rými til virkrar þátttöku.