Á þriðjudaginn 28. janúar kl.18.00 er auka aðalfundur foreldrafélags Stapaskóla. Á þeim fundi verður einnig mikilvægt fræðsluerindi frá Heimili og skóla um netöryggi.
Í fræðslunni er farið yfir hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að stafrænu uppeldi, hvernig hægt er að skapa jákvætt umhverfi þegar kemur að miðlanotkun, mikilvægi þess að skapa traust og samtal milli barna og foreldra og hvernig foreldrar geta hjálpað börnum sínum á sem bestan máta með netnotkun og hegðun. Foreldrar fá verkfæri til að efla þetta hlutverk sitt og hvernig á að bregðast við erfiðum eða óþægilegum aðstæðum sem upp koma á netinu.
Fræðslunni er skipt upp í eftirfarandi kafla:
- Jákvæð miðlanotkun: Hér er farið yfir hvaða jákvæðu myndir miðlanotkun hefur og hvernig foreldrar geta ýtt undir jákvæða notkun og góðar netvenjur barna sinna.
- Breytingar og áhrif netsins á börn: Netnotkun barna er skoðuð, frá fyrstu skrefum og fram á unglingsaldur. Rætt er um reglur og ramma og hvaða áhrif netnotkun getur haft á börn. Birtingarmyndir nethegðunar eru skoðaðar, hættur, áhyggjur, kvíði og farið er yfir nýjustu rannsóknir á netnotkun barna á Íslandi.
- Foreldrar sem fyrirmyndir: Skoðað verður hvernig foreldrar geta verið fyrirmyndir fyrir börn sín þegar kemur að tækja- og netnotkun, farið yfir nethegðun og friðhelgi einkalífs.
- Að tala saman: Hér verður farið yfir mikilvægi samræðunnar og hvernig skapa á traust milli foreldra og barna til að geta rætt það sem gerist á netinu. Einnig er fjallað um hvernig foreldrar barna í hóp geta rætt saman um það sem er að gerast í hópnum varðandi netnotkun.
- Hjálp í erfiðum aðstæðum: Hér fá foreldrar verkfæri ef börnin þeirra lenda í einhverju erfiðu og óþægilegu á netinu, hvað skal gera og hvernig á að vinna með þær aðstæður sem skapast.
Fræðslan er lifandi samtal við foreldra og geta þeir spurt spurninga og komið með vangaveltur á meðan á fræðslunni stendur.