- Skólinn
- Nám & kennsla
- Stoðþjónusta
- Frístundaheimilið
- Leikskólastig
- Foreldrar
- Hagnýtt
- Farsæld barna
Í dag, þann 16. nóvember var haldið upp á Dag íslenskrar tungu hér í Stapaskóla. Dagurinn var fjölbreyttur hjá nemendum en allir árgangar brutu upp daginn með skemmtun og gleði. 1. og 2. bekkur auk Óskasteins á leikskólastigi fengu Höllu Karen í heimsókn. Hún leiklas söguna um Grýlu og söng nokkur lög með nemendum. Vakti þetta mikla ánægju og gleði á meðal barnanna.
3. – 6. bekkur koma fram á sal í skemmtilegum atriðum sem þau hafa undirbúið undanfarna daga, má þar helst nefna söng og ljóðalestur. Auk þess sem sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar frá því í vor, þær Íris Brynja og Dagbjört Dóra, fluttu ljóð. Notaleg stund á sal og eiga nemendur og kennarar þeirra hrós skilið fyrir vel undirbúin og skemmtileg atriði.
Á unglingastigi var blásið til spurningakeppni á milli nemenda í 10. bekk og kennara. Spurningahöfundur og dómari var Kormákur Andri kennari í 9. bekk og voru spurningarnar fjölbreyttar og skemmtilegar. Það var töluverður hamagangur í öskjunni þegar bjölluspurningarnar voru bornar upp og keppst var um að ná bjöllunni. Að þessu sinni var það lið kennara sem bar sigur úr býtum.
Auk þess afhenti 8. bekkur nemendum í 7. bekk upplestrarkeflið en á Degi íslenskrar tungu hefst undurbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina ár hvert og er það alltaf 7. bekkur sem tekur þátt í þeirri keppni.
Dag íslenskrar tungu er haldinn ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson var með lærðustu mönnum síns tíma. Hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Jónas fór í rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. Auk vísindastarfa var Jónas virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, hann orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk á íslenska tungu