Heilsustefna Stapaskóla – leikskólastig.

Þátttöku í Heilsueflandi leikskóla er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í sínu starfi. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks. Samkvæmt aðalnámsskrá leikskóla (2011) er heilbrigði og vellíðan einn af sex grunnþáttum menntunar. Þátttaka í Heilsueflandi leikskóla styður skóla í að innleiða þennan grunnþátt í öllu sínu starfi.

Öll börn eiga rétt á að læra og þroskast í öruggu umhverfi þar sem þeim er mætt af virðingu. Mikilvægt er að starfsfólk myndi góð og náin tengsl við börnin, sýni þeim kærleik og virðingu og stuðli að því að börnin fái tækifæri til að upplifa gleði og tilhlökkun. Leikur þarf að fá að ögra og örva hreyfifærni barna innan sem utandyra, mikilvægt er að börn fái margvíslega hreyfingu í daglegu leikskólastarfi. Leikgæði byggjast ekki eingöngu á þeim einstaklingum sem leika sér heldur einnig á aðstæðum og því er mikilvægt að leikur barna í leikskóla fái gott rými og góða hljóðvist. Námsumhverfi leikskóla á að vera eins eiturefnalaust og unnt er, þar með talið; efniviður, fæði og hreinsiefni. Nauðsynlegt er að börn fái tækifæri til hvíldar yfir daginn, sérstaklega yngstu börnin sem þurfa að sofa. Einnig að börn fái fjölbreyttan, góðan og næringaríkan mat í leikskóla. Að snæða er félagsleg athöfn og umhverfið og andrúmsloftið sem ríkir þegar borðað er skiptir ekki síður máli fyrir líðan og heilsu en fæðan sjálf.

 

Lykilþættir skólastarfsins

 

Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, fjölskylda, geðrækt, mataræði, nærsamfélag, starfsfólk, tannheilsa og öryggi.

Fylltir eru út gátlistar varðandi alla þessa lykilþætti en vinnsla á gátlistum er veigamikill hluti af markvissu heilsueflingarstarfi. Yfirferð þeirra veitir innsýn í stöðuna og í framhaldi eru þeir vinnutæki til að halda utan um starfið og meta framvindu þess.

Myndbönd heilsueflandi leikskóla.

Vellíðan leikskólabarna Næring og matarvenjur

Vellíðan leikskólabarna Hreyfing og útivera

Vellíðan leikskólabarna Hegðun og samskipti

Vellíðan leikskólabarna Hvíld og svefn